Nýr svifryksmælir á Akureyri og götusópun í blíðunni

Frétt af heimasíðu Akureyrarbæjar "Götusópun í desember Alla daga í þessari viku hefur verið unnið að því að sópa götur í bænum með það fyrir augum að sporna gegn svifryksmengun. Að slík „vorverk“ séu unnin í desember á Akureyri hefur ekki áður gerst svo lengi sem elstu menn muna. Tveir stórir sópbílar hafa verið nýttir til verksins og einn minni bíll þar sem hinir stærri komast ekki að. Miðbæjarsvæðið hefur verið hreinsað sem og helstu stofn- og tengibrautir. Sem áður segir er markmiðið að minnka svifryksmengun en á þurrum og köldum dögum þyrlast mikið ryk upp frá umferðinni. Akureyrarbær og Umhverfisstofnun hafa nýverið fest sameiginlega kaup á nýjum og fullkomnum svifryksmæli sem verður settur upp fljótlega en eldri mælirinn sem var við Tryggvabraut hefur verið til vandræða síðustu misserin. Vegna þessarar góðu tíðar eru nú einnig unnin ýmis verk við stígagerð, malbikun og annan frágang sem er mjög óvenjulegt á þessum árstíma. Veðrið leikur einnig við þá sem vinna að framkvæmdum við breytingar á sundlaugarsvæðinu við Þingvallastræti. Þá hefur kostnaður við snjómokstur í haust einnig verið minni en oftast áður og er nú kominn í um 13 milljónir króna. Til samanburðar var kostnaður við snjómokstur frá hausti til áramóta um 55 milljónir króna árið 2015 en 67 milljónir árið 2014."
Lesa meira

Bandormahreinsun hunda, frétt á heimasíðu Matvælastofnunar

"Á yfirstandandi sláturtíð hafa eftirlitsdýralæknar Matvælastofnunar orðið varir við vöðvasull í sauðfé frá nokkrum bæjum og hefur greining verið staðfest af sérfræðingum á Tilraunastöð HÍ að Keldum. Um er að ræða aukna tíðni og gæti ástæðan verið misbrestur á bandormahreinsun hunda." "Ormahreinsun hunda þar sem búrekstur er, skal fara fram að lokinni aðalsláturtíð eða í síðasta lagi í desember ár hvert. Það skal tekið fram að smitið viðhelst fyrir lífstíð í sýktu fé og því er mikilvægt að sjá til þess að hundar komist ekki í eða séu fóðraðir á hráu kjöti. Jafnframt vill Matvælastofnun beina þeim tilmælum til refaskyttna að leggja ekki út hræ af kindum fyrir refi." Sjá nánar á eftirfarandi tengli: http://www.mast.is/frettaflokkar/frett/2016/11/03/Vodvasullur-i-saudfe-og-bandormahreinsun-hunda/
Lesa meira

Skýrsla um sölu sýklalyfja í Evrópu

Skýrsla um sölu sýklalyfja í Evrópu, frétt á heimasíðu Matvælastofnunar "Sala sýklalyfja fyrir dýr dróst saman um 2,4% í Evrópu frá 2011 til 2014, á sama tímabili jókst sala á mikilvægustu breiðvirku sýklalyfjunum úr 0,2% í 7,5% af heildar sölu sýklalyfja (sýklalyfja ætluð mönnum og dýrum). Hvatning yfirvalda í Evrópu til að nota sýklalyf á ábyrgan hátt og aukin vitundarvakning um fjölónæmar bakteríur virðist skila sér í samdrætti á sölu sýklalyfja. Hömlur á notkun sýklalyfja og bætt sjúkdómastaða virðist einnig skila sér í minni notkun sýklalyfja í dýrum. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu um sölu sýklalyfja í Evrópu árið 2014 sem gefin er út af Evrópsku Lyfjastofnuninni (European Medicines Agency). Í skýrslunni er ítarleg samantekt yfir sölu sýklalyfja í 29 Evrópulöndum. Það er fagnaðarefni að heildarsala sýklalyfja skuli dragast saman en um leið vekur það áhyggjur að aukning sé á sölu á mikilvægum breiðvirkum sýklalyfjum. Tiltekin breiðvirk sýklalyf eru síðasta úrræðið við meðhöndlun erfiðra sýkinga í mönnum, þegar önnur sýklalyf virka ekki, og ætti þess vegna ætíð að nota þau sem síðasta val í dýrum. Magn seldra sýklalyfja er mismikið milli landa í Evrópu og getur það skýrst af ólíkri sjúkdómastöðu landanna. Magntölur eru leiðréttar m.t.t. fjölda dýra í hverju landi fyrir sig, þannig að samanburður sé mögulegur. Á mynd hér að neðan er yfirlit yfir sölu sýklalyfja, staða Íslands samanborið við önnur Evrópulönd er góð. Líkt og undanfarin ár var sala sýklalyfja ætluð dýrum á Íslandi árið 2014 mjög lítil og er aðeins Noregur með minni notkun ef tekið er mið af mg/PCU (leiðréttingarstuðull m.t.t. fjölda dýra). Í skýrslunni kemur einnig fram að samanborið við önnur lönd kemur Ísland mjög vel út þegar val á sýklalyfjum er skoðað. Meiri hluti seldra sýklalyfja hér á landi eru penicillin sýklalyf og er sala breiðvirkra lyfja minni en í flestum öðrum löndum Evrópu. Sales of veterinary antimicrobial agents in 29 European countries in 2014 - European Medicines Agency bls.35 Í skýrslunni er sérstakur kafli um sýklalyfið colistin, en það er lyf sem Evrópska Lyfjastofnunin ráðleggur að eingöngu sé notað sem síðasta val við meðhöndlun dýra og manna. Fyrsta tilfelli ónæmis gegn colistin var greint í Kína á árinu 2015. Á árunum 2011-2014 dróst heildarsala á colistin saman um 9 % í Evrópu, þ.e. colistin sem ætlað er bæði mönnum og dýrum. Ekki er vitað til þess að þetta lyf sé notað hér á landi í dýrum."
Lesa meira

Tilmæli Umhverfisstofnunar um dekkjakurl sem fylliefni á gervigrasvöllum

Tilmæli Umhverfisstofnunar um dekkjakurl sem fylliefni á gervigrasvöllum Kurl unnið úr hjólbörðum inniheldur hættuleg efni. Æskilegt er að draga úr notkun heilsu- og umhverfisskaðlegra efna. Þó að rannsóknir hafi ekki sýnt fram á að notkun dekkjakurls valdi heilsufarslegum skaða beinir Umhverfisstofnun því til aðila sem bera ábyrgð á gervigrasvöllum, að við endurnýjun vallanna eða við byggingu nýrra valla verði notaðar aðrar lausnir. Ef fylliefni eru notuð ætti að leitast við að velja slík efni með sem hafa lægstan styrk skaðlegra efna. Mælingar sýna að dekkjakurl getur innihaldið PAH, þrávirk efni sem geta valdið krabbameini, í umtalsvert meira magni en t.a.m. kurl úr iðnaðargúmmíi. Að auki liggja fyrir upplýsingar um töluverðan breytileika á styrk PAH í iðnaðargúmmíi. Í ljósi þessara upplýsinga hvetur Umhverfisstofnun kaupendur fylliefna fyrir gervigrasvelli til að gera kröfu um innihaldslýsingar frá framleiðendum og leggja þær til grundvallar við val á efni. Til að lágmarka snertingu við kurlið má til dæmis huga að viðeigandi klæðnaði. Ekki ætti að neyta matar á eða við vellina. Fólk sem á erfitt með öndun eða þjáist af astma ætti að vera meðvitað um að gæði lofts í íþróttahúsum með gervigrasvöllum geta verið lítil. Verði ofnæmisáhrifa vart af snertingu við gúmmíkurl ætti að forðast hana eftir fremsta megni. Áhyggjur af notkun kurls á gervigrasvöllum og sparkvöllum eru ekki eingöngu heilsufarslegs eðlis. Komið hafa fram áhyggjur vegna umhverfisáhrifa sem kurlið gæti haft. Við niðurbrot gúmmís getur m.a. myndast örplast og afrennsli frá völlunum getur borist í jarðveg í kringum vellina. Eðlilegt er að takmarka umhverfisáhrif vallana eftir því sem unnt er. Greinargerð: Umræða um gúmmíkurl og mögulega skaðsemi þess hefur verið áberandi hér á landi undanfarna mánuði. Þó að gúmmí geti verið misjafnt að gerð hafa ýmis skaðleg efni, eins og þungmálmar (blý, zink og kadmíum) og olía sem inniheldur fjölhringa arómatísk vetniskolefni (PAH), sem eru þrávirk og geta m.a. valdið krabbameini, verið notuð við framleiðslu hjólbarða. Á mörgum gervigrasvöllum er notað gúmmíkurl sem unnið er úr notuðum hjólbörðum. Samkvæmt upplýsingum sem Umhverfisstofnun fékk frá KSÍ voru 197 gervigrasvellir á landinu árið 2015. Um 82% þeirra voru með svart dekkjakurl en 18% annað kurl (litað eða iðnaðarkurl). Notkun dekkjakurlsins hefur valdið áhyggjum vegna efnanna sem gætu losnað út í umhverfið frá því og umræðan hefur haft þau áhrif að mörg sveitarfélög hafa sett fram áætlanir um að endurnýja gervigrasvelli með öðru efni en dekkjakurli, t.a.m. Reykjavík.[1] Umhverfisstofnun hefur fylgst náið með umræðu um dekkjarkurl á gervigrasvöllum á Norðurlöndum, þar sem notkun þess hefur verið skoðuð með ítarlegri hætti. Yfirvöld umhverfismála á Norðurlöndum hafa, á forsendum rannsókna, tekið þá afstöðu að dekkjakurl á gervigrasvöllum sé ekki skaðlegt þeim sem nota vellina. Umhverfisstofnunin í Danmörku fullyrðir að því fylgi ekki meiri heilsufarsleg áhætta að nota gervigrasvelli með gúmmíkurli en venjulega grasvelli, en útilokar ekki að kurlið geti vakið ofnæmisviðbrögð hjá einstaklingum sem eru viðkvæmir fyrir einhverjum efnum sem í því finnast.[2] Þó að rannsóknir bendi ekki til að notkun á dekkjakurli fylgi heilsufarsleg áhætta, inniheldur dekkjakurl óæskileg efni sem gætu smitast út í nálægt umhverfi. Sum þessara efna gætu skaðað lífverur í vatni, sjó og jarðvegi. Í ljósi þessa hafa nokkur Evrópuríki verið með til skoðunar hvort eðlilegt sé að leyfa þessa notkun á dekkjakurli. Í Noregi[3] og Svíþjóð[4] hafa yfirvöld gefið út tilmæli um að skipta dekkjakurlinu út við endurnýjun gervigrasvalla og leita annarra leiða á nýjum völlum. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra lét mæla svifryk í íþróttahúsinu Boganum og djúphreinsa gervigrasið þar í kjölfar kvartana um lítil loftgæði. Í stuttu máli jukust gæði lofts mikið við djúphreinsun, en magn svifryks var yfir heilsuverndarmörkum (50 μg/m3) fyrir hreinsunina, eða um 60-70 μg/m3 í lok dags. Eftir djúphreinsun lækkaði styrkurinn í 20-30 μg/m3.[5] Í kjölfar fundar fulltrúa Umhverfisstofnunar með Sóttvarnalækni í mars 2016 óskuðu fulltrúar Umhverfisstofnunar eftir áliti Sóttvarnalæknis um heilsufarsleg áhrif dekkjakurls á íþróttavöllum hér á landi. Í svari Sóttvarnalæknis[6] kom fram að hann telji ekki forsendur vera fyrir því að fullyrða, að börnum og unglingum stafi heilsufarsleg hætta af dekkjakurli á íþróttavöllum en að skortur sé á áreiðanlegum rannsóknum á þessu sviði. Í ljósi þessarar óvissu telur Sóttvarnalæknir þá kröfu skiljanlega að dekkjakurl verði ekki notað á íþróttavöllum landsins. Í rannsókn, sem Heilsu- og velferðastofnun Finnlands gerði árið 2015, kom fram að PAH innihald kurls úr iðnaðargúmmíi (1,5 mg/kg) væri mun minna en í dekkjakurli (38-81 mg/kg).[7] Umhverfisstofnun lét framkvæma efnagreiningu á sýnum af kurli sem tekin voru af nokkrum gervigrasvöllum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Styrkur ýmissa efna sem mæld voru í kurlinu (fenól, kresól, xýlenól, PCB og þalöt) reyndist vera undir greiningarmörkum.[8] Vegna tæknilegra örðugleika náðust ekki þau greiningarmörk sem vonast var til fyrir PAH. Því sendi Umhverfisstofnun auka sýni til mælinga á PAH hjá öðrum aðila. Þær mælingar sýndu[9] að heildarmagn PAH (16 slík efnasambönd voru mæld) er umtalsvert hærra í sýnum úr svörtu dekkjakurli (29-42 mg/kg) en í kurli úr iðnaðargúmmíi (10 mg/kg). Einnig vekur athygli að styrkur PAH í iðnaðargúmmíinu reyndist töluvert hærri en í finnsku mælingunum. Í REACH (reglugerð um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni) eru ekki sérstök ákvæði um styrk PAH eða annarra efna í dekkjakurli. Efnastofnun Evrópu (ECHA) hefur hins vegar skorið úr um það að gúmmíkurl úr dekkjum teljist efnablanda, en ekki hlutur. Af því leiðir að í kurlinu er leyfilegur styrkur hvers efnis, sem flokka má sem krabbameinsvaldandi PAH, 0,1% eða 1000 mg/kg.[10] Sum efnasambönd eru sérstaklega tiltekin og hafa þrengri mörk. Þannig má kurlið mest innihalda 100 mg/kg af benzo(a)pyrene, sem tilheyrir hópi PAH-efna. Eins og sjá má að framan sýna mælingar að styrkur PAH í kurlinu er vel innan þeirra marka sem sett eru í reglugerðinni. ECHA er nú með til sérstakrar skoðunar hvort heilsufarsleg áhætta geti stafað af notkun dekkjakurls sem fylliefnis í gervigrasi.[11] Efnastofnun Evrópu mælir ekki gegn notkun íþróttavalla með dekkjakurli á forsendum núverandi þekkingar. Sumarið 2016 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum, þar sem Alþingi felur umhverfis- og auðlindaráðherra, í samstarfi við Umhverfisstofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga „að móta áætlun sem miði að því að kurluðu dekkjagúmmíi verði skipt út fyrir hættuminni efni á þeim leik- og íþróttavöllum þar sem það er nú að finna. Því verki verði lokið fyrir árslok 2016.“[12]
Lesa meira

Vel heppnað réttindanámskeið fyrir verðandi heilbrigðisfulltrúa

20. október 2016, frétt af heimasíðu Umhverfisstofnunar: Vel heppnað réttindanámskeið fyrir verðandi heilbrigðisfulltrúa Umhverfisstofnun í samstarfi við Matvælastofnun hélt réttindanámskeið fyrir verðandi heilbrigðisfulltrúa dagana 3. til 7. október 2016. Fyrstu þrjá dagana var farið yfir þætti er varða lagaumhverfi heilbrigðiseftirlits, hollustuhætti, eftirlit með efnavörum og mengunarvarnir í húsnæði Umhverfisstofnunar í Reykjavík. Seinni tvo daga námskeiðsins var farið yfir þætti er varða matvælalöggjöf og matvælaeftirlit og var kennt í húsnæði Matvælastofnunar á Selfossi. Alls voru fluttir 37 fyrirlestrar um efni sem tengjast starfi heilbrigðisfulltrúa. Námskeiðið sóttu alls 10 verðandi heilbrigðisfulltrúar auk þess sem fyrirlestrar voru sendir út til að gera starfandi heilbrigðisfulltrúum og starfsmönnum Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar kleift að nýta þá til endurmenntunar. Leyfi umhverfisráðherra þarf til að hafa rétt til þess að starfa sem heilbrigðisfulltrúi hér á landi og kalla sig heilbrigðisfulltrúa. Eitt af skilyrðum þess er að viðkomandi að hafi sótt námskeið um stjórnsýslu, lög og reglugerðir sem heilbrigðisfulltrúum ber að sjá um að sé framfylgt.
Lesa meira

Tilkynning til íbúa á Árskógssandi og Hauganesi og dreifbýli á Árskógsströnd

Tilkynning til íbúa á Árskógssandi og Hauganesi og dreifbýli á Árskógsströnd Neysluvatn á Árskógssandi, Hauganesi og í dreifbýli á Árskógsströnd er orðið drykkjarhæft. Föstudaginn 14. október voru tekin tvö sýni úr neysluvatni fyrir ofangreint svæði. Mánudaginn 17. október barst tilkynning frá heilbrigðiseftirliti þar sem veitt var leyfi til að aflétta fyrri aðgerðum vegna mengunar á drykkjarvatni. Þetta tilkynnist hér með. Vatnsveita Dalvíkurbyggðar
Lesa meira

Nýlegar iðrasýkingar af völdum salmonellu

Frétt af heimasíðu Matvælastofnunar: "Nýlegar iðrasýkingar af völdum salmonellu Frá því í ágúst sl. hafa 12 einstaklingar greinst með iðrasýkingu af völdum Salmonella Typhimurium hér á landi. Þessi fjöldi er talsvert umfram það sem búast má við af þessari tegund salmonellu. Flestir einstaklinganna hafa greinst á suðvesturhorni landsins en eitt á Austurlandi. Þessar bakteríur virðast vera af sama stofni. Enn er með öllu óljóst um uppruna þessa smits en sóttvarnalæknir rannsakar þetta mál í samvinnu við sýklafræðideild Landspítala, Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit viðkomandi svæða. Árlega greinist salmonellusýking hjá um 40 einstaklingum hér landi en sem af er 2016 hafa rúmlega 20 einstaklingar greinst. Á þessu stigi er ekki tilefni til að vara við neyslu tiltekinna matvæla en rétt er hins vegar að benda fólki á skynsamlega meðferð matvæla og vanda matargerð svo forðast megi sýkingu af iðrabakteríum. Ítarefni • Upplýsingasíða Embættis landlæknis um salmonellu • Sýkingavarnir fyrir almenning á vef Embættis landlæknis • Varnir gegn matarsýkingum og matareitrun á vef Embættis landlæknis • Heilræði Matvælastofnunar við meðhöndlun matvæla • Upplýsingasíða Matvælastofnunar um salmonellu Sóttvarnalæknir og Matvælastofnun"
Lesa meira

Tilkynning til íbúa á Árskógssandi og Hauganesi

Tilkynning til íbúa á Árskógssandi og Hauganesi Við sýnatöku 7. október sl. kom í ljós að neysluvatni er mengað. Í samráði við heilbrigðiseftirlit er því beint til íbúa að sjóða vatn til beinnar neyslu. Markvisst er verið að vinna að úrbótum og skolað út í stofnæðum og vatnstanka og fylgst með vatnsgæðum. Einn þáttur í þessu að nota klór til hreinsunar og geta íbúar fundi væga klórlykt á meðan á þessum aðgerðum stendur. Gefin verður út ný tilkynning þegar ástandið á lagast. Vatnsveita Dalvíkurbyggðar
Lesa meira

Sala beint frá býli er starfsleyfisskyld

Frétt af heimasíðu Matvælastofnunar: "Sala beint frá býli er starfsleyfisskyld 30.09.2016 Matvælaöryggi Matvælastofnun vekur athygli á að sala beint frá býli er starfsleyfisskyld. Matvælalög kveða skýrt á um að hver sá sem dreifir matvælum skuli hafa leyfi yfirvalda til þess, annað hvort frá Matvælastofnun eða heilbrigðiseftirliti viðkomandi sveitarfélags. Í ljósi mikillar aukningar á sölu matvæla beint frá býli hvetur Matvælastofnun alla þá bændur sem ekki hafa nú þegar gilt starfsleyfi og vilja selja beint frá býli að sækja án tafar um starfsleyfi til stofnunarinnar sé búfjárhald meginstarfsemi þeirra. Sé búfjárhald ekki meginstarfsemi þeirra þá sækja þeir um starfsleyfi til heilbrigðiseftirlits í héraði. Tilgangur matvælalaga er að tryggja neytendum örugg matvæli eins og kostur er, í því skyni þarf hver sá sem dreifir matvælum að hafa gilt starfsleyfi yfirvalda. Í dreifingu matvæla felst hvers konar flutningur, framboð og afhending, þar með talið innflutningur, útflutningur og sala. Hér er einnig átt við geymslu og annað sem tengist dreifingu. Umsóknum um starfsleyfi frá Matvælastofnun skal skilað inn rafrænt í þjónustugátt MAST á heimasíðu stofnunarinnar www.mast.is. Aðrir leiti upplýsinga hjá heilbrigðiseftirliti í sínu sveitarfélagi."
Lesa meira

Starfsleyfistillaga í auglýsingu: brennsluofn fyrir áhættuvefi frá sláturhúsi Norðlenska á Akureyri

Lesa meira