Nýr svifryksmælir á Akureyri og götusópun í blíðunni

Frétt af heimasíðu Akureyrarbæjar "Götusópun í desember Alla daga í þessari viku hefur verið unnið að því að sópa götur í bænum með það fyrir augum að sporna gegn svifryksmengun. Að slík „vorverk“ séu unnin í desember á Akureyri hefur ekki áður gerst svo lengi sem elstu menn muna. Tveir stórir sópbílar hafa verið nýttir til verksins og einn minni bíll þar sem hinir stærri komast ekki að. Miðbæjarsvæðið hefur verið hreinsað sem og helstu stofn- og tengibrautir. Sem áður segir er markmiðið að minnka svifryksmengun en á þurrum og köldum dögum þyrlast mikið ryk upp frá umferðinni. Akureyrarbær og Umhverfisstofnun hafa nýverið fest sameiginlega kaup á nýjum og fullkomnum svifryksmæli sem verður settur upp fljótlega en eldri mælirinn sem var við Tryggvabraut hefur verið til vandræða síðustu misserin. Vegna þessarar góðu tíðar eru nú einnig unnin ýmis verk við stígagerð, malbikun og annan frágang sem er mjög óvenjulegt á þessum árstíma. Veðrið leikur einnig við þá sem vinna að framkvæmdum við breytingar á sundlaugarsvæðinu við Þingvallastræti. Þá hefur kostnaður við snjómokstur í haust einnig verið minni en oftast áður og er nú kominn í um 13 milljónir króna. Til samanburðar var kostnaður við snjómokstur frá hausti til áramóta um 55 milljónir króna árið 2015 en 67 milljónir árið 2014."