Nýlegar iðrasýkingar af völdum salmonellu

Frétt af heimasíðu Matvælastofnunar: "Nýlegar iðrasýkingar af völdum salmonellu Frá því í ágúst sl. hafa 12 einstaklingar greinst með iðrasýkingu af völdum Salmonella Typhimurium hér á landi. Þessi fjöldi er talsvert umfram það sem búast má við af þessari tegund salmonellu. Flestir einstaklinganna hafa greinst á suðvesturhorni landsins en eitt á Austurlandi. Þessar bakteríur virðast vera af sama stofni. Enn er með öllu óljóst um uppruna þessa smits en sóttvarnalæknir rannsakar þetta mál í samvinnu við sýklafræðideild Landspítala, Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit viðkomandi svæða. Árlega greinist salmonellusýking hjá um 40 einstaklingum hér landi en sem af er 2016 hafa rúmlega 20 einstaklingar greinst. Á þessu stigi er ekki tilefni til að vara við neyslu tiltekinna matvæla en rétt er hins vegar að benda fólki á skynsamlega meðferð matvæla og vanda matargerð svo forðast megi sýkingu af iðrabakteríum. Ítarefni • Upplýsingasíða Embættis landlæknis um salmonellu • Sýkingavarnir fyrir almenning á vef Embættis landlæknis • Varnir gegn matarsýkingum og matareitrun á vef Embættis landlæknis • Heilræði Matvælastofnunar við meðhöndlun matvæla • Upplýsingasíða Matvælastofnunar um salmonellu Sóttvarnalæknir og Matvælastofnun"