Aðgerðaráætlun í umhverfis- og loftlagsmálum.

Aðgerðaráætlun heilbrigðisnefndar í umhverfis- og loftslagsmálum:

Samgöngur:

Heilbrigðisnefnd stefnir að því að lagmarka notkun á jarðefnaeldsneyti með því að skipta út eldri bifreiðum Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra (HNE) í nýja rafdrifna bíla. Þessi breyting kemur að fullu til framkvæmdar á Akureyrarskrifstofu þann 1. jan. 2022. Á Húsavíkurskrifstofu er í notkun tvinnbifreið sem verður skipt út fyrir rafdrifna bifreið í lok árs 2022. Þannig verður allur daglegur akstur Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra á rafdrifnum bílum og farartæki knúin jarðefnaeldsneyti eingöngu notuð í undantekningartilfellum, s.s. vegna ófærðar eða ferða á torfærum leiðum. Þá hefur orðið sú þróun á Covid tímum að fræðslu- og vinnufundir eru í auknum mæli framkvæmdir í fjarfundabúnaði og er stefnt að því að halda því verklagi áfram og lagmarka þannig þörf á ferðalögum um lengri eða skemmri veg. Helstu samstarfsaðilar HNE eru Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi og í þeim samskiptum nýtist fjarfundabúnaður afar vel.

Innkaup og þjónustukaup:

Heilbrigðisnefnd leggur áherslu á umhverfisvæn innkaup og að velja umhverfismerktar vörur og þjónustu umfram annað; jafnframt því að draga úr kaupum á óþarfa og velja vandaða vöru sem er líkleg til að endast vel. Þá skal horfa til leiðbeininga Umhverfisstofnunar um Græn skref og vistvæn innkaup.

Orkunotkun:

Fara skal vel með orku  og hafa orkusparnað í heiðri, s.s. hvað varðar heitavatnsnotkun og notkun á rafmagni til lýsingar og annars rekstur á skrifstofuhúsnæði HNE.

Úrgangur:

Draga skal úr myndun úrgangs og efla flokkun og endurvinnslu á þeim úrgangi sem fellur til og nota rafræn samskipti eftir því sem kostur er og draga þannig úr prentun á pappír og takmarka litprentun. Þá skal draga úr matarsóun á kaffistofum og haga innkaupum á matvöru þannig að kolefnisspor verði lagmarkað.

Fræðsla og kynningar:

Hvetja skal til aukinnar umhverfismeðvitundar í samfélaginu og beita fræðslu og hvatningu til góðra verka í umhverfismálum, s.s.  gagnvart almenningi, sveitarstjórnum, samstarfsaðilum, viðskiptavinum og efla innra umhverfisstarf á starfsstöðvum HNE á Akureyri og Húsavík. Slíkt samstarf getur varðað Grænt bókhald, framkvæmd Grænna skrefa og kolefnisjöfnun vegna samgangna, úrgangs og orkunotkunar á hverju ári. Aðgerðaráætlun heilbrigðisnefndar í umhverfis- og loftslagsmálum skal endurskoða árlega.

Samþykkt á fundi heilbrigðisnefndar 24. nóvember 2021