Umhverfisbrot, frétt af heimasíðu Umhverfisstofnunar

05. desember 2014

Saksóknarar í heimsókn hjá Umhverfisstofnun 

Lögfræðingar Umhverfisstofnunar áttu fund með embættum Sérstaks saksóknara og Ríkissaksóknara í húsakynnum Umhverfisstofnunar í fyrradag. Tilgangur fundarins var að ræða um umhverfisbrot með auðgunarásetningi. Fulltrúar Umhverfisstofnunar kynntu þá málaflokka sem eiga undir stofnunina, nýmæli í löggjöf og fóru yfir helstu mál sem komið hafa komið upp síðustu misseri.

Fundarmenn voru einhuga um mikilvægi þess að umhverfisbrot hljóti aukið vægi og lýstu yfir vilja til frekara samstarfs. Sigrún Ágústsdóttir sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun segir að fundurinn hafi fært stofnuninni skarpari sýn á umhverfisbrot þar sem grunur er um auðgunarásetning, gagnlegar ábendingar hafi komið fram um vinnulag við meðferð umhverfisbrota og von sé á áframhaldandi samstarfi við útfærslu á verkferlum. Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari sagði að á fundinum hafi starfsmenn Umhverfisstofnunar farið á greinargóðan hátt yfir þau verkefni og álitaefni sem stofnunin glímir við þegar kemur að umhverfisbrotum.