Sóttmengaður úrgangur, vandræðaástand

Vandræðaástand hefur skapast eftir að sorpbrennslustöðin á Húsavík hætti starfsemi. Nýlega kom upp atvik í Eyjafirði þar sem féll til talsvert magn af sóttmenguðum úrgangi. Ekki fékkst samþykki fyrir urðun í Stekkjarvík við Blönduós og var þá leitað eftir leyfi til urðunar að Fíflholtum á Mýrum. Sorpurðun Vesturlands hf hljóp undir bagga með Norðlendingum og þessi úrgangur verður urðaður að Fíflholtum með leyfi Umhverfisstofnunar og að fengnu samþykki frá Matvælastofnun (Héraðsdýralækni Vesturlands), Heilbrigðiseftirliti Vesturlands og Sóttvarnalækni.  Öruggast er að brenna sóttmengaðan úrgang; en í ákveðnum tilvikum er heimilt að urða slíkan úrgang á viðurkenndum urðunarstað að uppfyltum tilteknum skilyrðum. Það er í reynd afleit staða að ekki skuli lengur vera til gott úrræði til að brenna mikið magn af sóttmenguðum landbúnaðarúrgangi hér á landi og brýnt að finna lausn á því máli. Sveitarfélög verða að taka höndum saman og finna úrræði og skrifa lausnir inn í sínar svæðisáætlanir um förgun úrgangs.