Sala á tilbúnu fóðri frá Fóðurblöndunni heimiluð á ný

Frétt af heimasíðu Matvælastofnunar

Sala á tilbúnu fóðri frá Fóðurblöndunni heimiluð á ný

18.10.2013                    Fréttir                   Dýraheilbrigði / Matvælaöryggi
 

Á þessu ári hafa komið upp sex tilfelli salmonellu á alifuglabúum sem eiga það sameiginlegt að hafa fengið tilbúið fóður frá Fóðurblöndunni hf. Í byrjun september innkallaði fyrirtækið tilbúið fóður vegna salmonellusmits og var birt frétt vegna málsins. Matvælastofnun sem og fyrirtækið hafa tekið sýni innan verkmiðjunnar og úr fóðri. Í alls tíu umhverfissýnum sem tekin voru innan fyrirtækisins greindist salmonella, en ekki hefur greinst salmonella í tilbúnu fóðri. Salmonellan sem greinst hefur á alifuglabúunum og smitið sem greindist í sekkjunarbúnaði og í umhverfissýnum, reyndist í öllum tilvikum vera Salmonella Worthington.

Vegna framangreinds stöðvaði Matvælastofnun markaðsetningu og dreifingu á öllu tilbúnu fóðri frá Fóðurblöndunni hf., að undanskildu fiskafóðri, og gerði kröfu um að fyrirtækið uppfyllti tiltekin skilyrði áður en fóðri yrði dreift að nýju. Áður en ákvörðun Matvælastofnunar var tekin hafði fyrirtækið þegar hafið miklar úrbætur og þrif á fyrirtækinu og kynnt þær ráðstafanir fyrir stofnuninni.

Í ákvörðun Matvælastofnunar var gerð krafa um að fyrirtækið framkvæmdi aðgerðaráætlun um þrif, gæðaeftirlit og fleira sem fyrirtækið hafði lagt fram vegna málsins. Fóðurblandan hf. skyldi auk þess framkvæma viðbótarhreinsanir á framleiðslulínu fyrirtækisins og auka gæðaeftirlit við enda hennar. Þá var gerð sú krafa að niðurstöður úr rannsóknum að loknum alþrifum staðfestu fullnægjandi þrif á fyrirtækinu. Matvælastofnun gerði jafnframt kröfu um að fyrirtækið upplýsti alla kaupendur tilbúins fóðurs frá 1. janúar 2013 um að sýni úr umhverfi og sekkjunarbúnaði hafi greinst jákvæð vegna salmonellu.

Í úttekt var staðfest að úrbætur og alþrif á fyrirtækinu sem og viðbótarþrif á framleiðslulínu hafi farið fram. Matvælastofnun hafa sömuleiðis borist niðurstöður úr sýnatökum að loknum alþrifum á fyrirtækinu og eru þau sýni neikvæð fyrir salmonellu. Þá hefur stofnunin fengið það staðfest að kaupendur tilbúins fóðurs hafi verið upplýstir af hálfu fyrirtækisins um niðurstöður úr umhverfissýnum.

Á þessum grunni aflétti Matvælastofnun banni á dreifingu fóðurs frá Fóðurblöndunni hf. þann 17. október, en áfram verður fylgst með því að fyrirtækið standi við aðgerðaráætlun sína um bætta framleiðsluhætti, aukið gæðaeftirlit og hitameðhöndlun fóðurs sem til er á lager.