Næringarefnamengun (ofauðgun) í Mývatni og málþing um fráveitur

Bókun heilbrigðisnefndar dags. 7. maí s.l.

 "Málþing í Mývatnssveit um fráveitur.

 Skýrt var frá málþingi sem nýlega var haldið í Mývatnssveit um fráveitumál. Í erindi Árna Einarssonar líffræðings kom fram að mjög stór breyting hefur orðið í Mývatni undanfarin ár;  þörungamotta á botni vatnsins er algerlega horfin; líklega vegna næringarefnamengunar af mannavöldum.  Ástæða þessa er líklega að það vantar birtu í vatnið; bakteríur í vatninu grugga það og skyggja þannig á botninn. Á þinginu var einnig fjallað um helstu leiðir til að hreinsa skólp og kynntar voru nokkrar gerðir af skólphreinsistöðvum. Heilbrigðisnefnd mælist til þess að sveitarstjórn Skútustaðahrepps taki frumkvæði í þessu máli og skipuleggi og hrindi í framkvæmd úrbótum í fráveitumálum; gagngert í þeim tilgangi að draga úr álagi á Mývatn af völdum næringarefna. Að mati heilbrigðisnefndar er nauðsynlegt að byggja vönduð hreinsivirki fyrir skólp fyrir þéttbýlið í Reykjahlíð, Voga og Skútustaði og víðar þar sem byggð er þétt á vatnasvæði Mývatns. Þá er mikilvægt að bændur eigi þétt og vönduð 6 mánaða haughús og hagi búrekstri í samræmi við starfsreglur Umhverfisstofnunar um góða búskaparhætti og skili landbúnaðarúrgangi í viðurkennda förgun."