Minni hætta af frosnum berjum

Frétt af heimasíðu Matvælastofnunar

Minni hætta af frosnum berjum

Undanfarna mánuði hafa frosin ber/berjablöndur, menguð með Hepatitis A veiru valdið sýkingahrinum í fólki á meginlandi Evrópu. Sýkingarnar mátti annars vegar rekja til berjablöndu, sem var í dreifingu á Ítalíu og Írlandi og hins vegar til innfluttra frosinna jarðaberja sem voru í dreifingu á Norðurlöndunum. Hér á landi hafa ekki greinst sýkingar af völdum lifrarbólgu A, sem rekja má til þessara matvæla og þess vegna er ólíklegt að þau hafi verið á markaði hérlendis.

Menguð matvæli hafa í báðum tilvikum verið fjarlægð af markaðnum og sýkingahrinan á Norðurlöndunum er í rénun.

Matvælastofnun hefur því í samvinnu við sóttvarnarlækni ákveðið að breyta þeim ráðleggingum, sem áður hafa verið gefnar út um suðu á frosnum berjum. Ekki er þörf á að sjóða öll frosin ber ef nota á þau í rétti sem ekki eru hitameðhöndlaðir. Það er þó enn mælt með suðu á hindberjum þar sem Nóróveirusýkingar hafa oft verið raktar til neyslu á frosnum hindberjum. Suða hefur hvorki áhrif á bragð né lit hindberja og því er vel hægt að sjóða þau áður en þau eru notuð í eftirrétti og drykki („smoothies“ og „boost“).