Miðlun upplýsinga um matvæli; frétt af heimasíðu Matvælastofnunar

Miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda

Reglugerð um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda var undirrituð sl. föstudag. Hún gerir kröfu um skýrari, ítarlegri og nákvæmari upplýsingar um innihald matvæla sem mun auðvelda neytendum að taka upplýsta ákvörðun um þann mat sem þeir velja og leiða þar með til aukinnar neytendaverndar.

Í reglugerðinni er fjallað um almennar meginreglur, kröfur og skyldur er varða matvælaupplýsingar, einkum merkingar matvæla. Nýju reglurnar gera ríkari kröfur um læsileika á umbúðum, framsetningu upplýsinga um ofnæmisvalda í matvælum, næringarupplýsingar á forpökkuðum matvælum, upprunamerkingar á kjöti og merkingar á viðbættu vatni í kjöti og fiski.

Breytingar verða á reglum um dagsetningar á matvælum. Leyfilegt verður að selja matvæli eftir að „Best fyrir“ dagsetning er útrunnin en þær vörur verður að aðgreina frá öðrum vörum í versluninni. Geymsluþolsmerkingin „Notist eigi síðar en“ sem nota skal á viðkvæm matvæli þýðir að ekki er heimilt að selja þau eftir að dagsetning er liðin þar sem matvælin eru þá ekki talin örugg til neyslu. Ekki verður lengur skylt að merkja pökkunardag á kælivörur en það er heimilt. Skylt verður að merkja frystidagsetningar á fisk og kjöt, auk þess að merkja að þau séu þídd, ef þau eru seld þannig.

Reglugerðin gildir um stjórnendur matvælafyrirtækja á öllum stigum matvælaferlisins þegar starfsemi þeirra varðar miðlun matvælaupplýsinga til neytenda. Hún gildir um öll matvæli sem ætluð eru neytendum, þ.m.t. matvæli sem stóreldhús afgreiða og matvæli sem ætluð eru fyrir stóreldhús.

Reglugerðin, sem innleiðir reglugerð Evrópusambandsins nr. 1169/2011, mun taka gildi við birtingu í Stjórnartíðindum. Matvælaframleiðendur hafa frest til 13. maí 2015 til að uppfylla nýjar reglur. Matvæli sem sett eru á markað eða eru merkt fyrir 13. maí 2015 og eru merkt í samræmi við núgildandi reglugerðir en uppfylla ekki kröfur nýju reglugerðarinnar, eru leyfileg í sölu á meðan birgðir endast.