Heitur lækur neðan við Vaðlaheiðargöng er ekki hæfur sem baðstaður

Þetta vatn er ekki baðvatn...
Þetta vatn er ekki baðvatn...
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra fer fram á að almenningur forðist böð í læknum og taki þannig tillit til eigin velferðar og óska landeigenda.

Af gefnu tilefni vill Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra vekja athygli á að heitt vatn sem rennur frá Vaðlaheiðargöngum hentar á engan hátt sem baðvatn.  

Nokkuð hefur borið á því  undanfarið að almenningur sækist í að baða sig eða busla í læk í landi Halllands, en umræddur lækur tekur við vatni úr Vaðlaheiðargöngum.  Vatnið sem um ræðir er heitt vatn sem streymir úr bergi innan í göngunum og kælivatn frá gangnagerðinni, en kælivatnið getur innihaldið ýmis skaðleg og ertandi efni eins og sýrur og olíur, auk þess sem mikið af fínefnum skolast út með vatninu og gera það afar gruggugt.  

Böð í umræddum læk eru í óþökk landeigenda og munu verða gerðar ráðstafanir á næstu dögum til að takmarka umferð óviðkomandi um svæðið.  

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra fer hér með fram á að almenningur forðist böð í læknum og taki þannig tillit til eigin velferðar og óska landeigenda.