Heimagisting, nýtt regluverk

Hægt er að sækja um starfsleyfi heilbrigðisnefndar á heimasíðu www.hne.is (umsóknir). Umsóknir til heilbrigðisnefndar verða framsendar til viðkomandi skipulags- og byggingafulltrúa til umsagnar og þar á eftir hefur heilbrigðisfulltrúi samband við umsækjanda til skoðunar á húsnæði. Sjá jafnframt upplýsingar af heimasíðu sýslumanna: www.heimagisting.is "Heimagisting Einstaklingum (ekki lögðaðilum) er heimilt að skrá heimagistingu gegn endurgjaldi á fasteign þar sem þeir eru með skráð lögheimili eða í einni annarri fasteign sem þeir hafa til persónulegra nota og er í þeirra eigu (þinglýst eign). Skráning heimagistingar: Einstaklingur sem hyggst bjóða heimagistingu skal tilkynna sýslumanni að hann hyggist leigja út lögheimili sitt eða eina aðra fasteign í sinni eigu (þinglýst). Við skráningu ber viðkomandi aðila að staðfesta að til staðar sé starfsleyfi heilbrigðisnefndar, húsnæðið uppfylli kröfur í reglugerð um brunavarnir, það hafi hlotið samþykki sem íbúðarhúsnæði og að húsnæðið sé fullnægjandi með tilliti til hollustuhátta samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Endurnýja þarf skráningu á ári hverju og við lok hvers almanaksárs skal aðili með skráða heimagistingu skila til sýslumanns yfirliti um þá daga sem húsnæði var leigt út ásamt upplýsingum um leigutekjur. Skil á upplýsingum skv. 1. málsl. er skilyrði fyrir endurnýjun skráningar á næsta almanaksári. Sýslumanni er heimilt að senda upplýsingar skv. 1. málsl. til skattyfirvalda. Við skráningu heimagistingar skal sýslumaður úthluta aðila númeri skráningar og ber aðila að nota númerið í allri markaðssetningu og kynningu, þ.m.t. á vefsíðum, bókunarsíðum, á sjálfri fasteigninni og í auglýsingum hvers konar. Fjöldi útleigðra daga í báðum eignum skal ekki fara yfir 90 daga samanlagt á hverju almanaksári hjá hverjum einstaklingi né skulu samanlagðar tekjur af leigu eignanna ekki nema hærri fjárhæð en kveðið er á um í 3. tölul. 4. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, sem nú er 2.000.000 kr."