Bókun heilbrigðisnefndar vegna asbestmálsins svokallaða

Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra gerir Íslenska gámafélaginu á Akureyri að koma asbestúrgangi sem grafinn var upp af athafnasvæði fyrirtækisins til viðurkenndrar spilliefnamóttöku.

Á fundi heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra þann 18.desember sl. var fjallað um meðhöndlun Íslenska gámafélagsins ehf. á spilliefnum, þ.e. móttöku, flutning, geymslu og urðun á asbesti.         Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum voru málsatvik þau að Íslenska gámafélagið sótti asbestúrgang á Ólafsfjörð í ágústmánuði sl. og flutti á athafnasvæði fyrirtækisins við Réttarhvamm á Akureyri til geymslu.  Úrgangurinn var svo skömmu síðar urðaður á og við sama svæði og uppgötvaðist það í nóvember sl.   

Í kjölfar umfjöllunar um málið sendi heilbrigðisnefnd Norurlands eystra frá sér eftirfarandi bókun:

Meðferð Íslenska gámafélagsins ehf. á spilliefnum, þ.e. móttaka, flutningur og förgun á asbesti frá Ólafsfirði í ágústmánuði sl., er skýrt brot á starfsleyfisskilyrðum fyrirtækisins.  Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra gerir þá kröfu að Íslenska gámafélagið fái aðila með tilskilin leyfi til að sjá um flutning úrgangsins á viðurkenndan urðunarstað fyrir árslok 2014.