Aukið matvælaöryggi

Samstarfsverkefni þýzkra og íslenskra stjórnvalda, frétt af heimasíðu Matvælastofnunar

Aukið matvælaöryggi

Samstarfsverkefni þýskra og íslenskra stjórnvalda, Örugg matvæli, hefur nú verið hrint úr vör. Megintilgangur verkefnisins er að auka matvælaöryggi og neytendavernd á Íslandi með því að auka vöktun á óæskilegum efnum í matvælum.

Örugg matvæli gerir íslenskum yfirvöldum, Matvælastofnun og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna betur kleift að framfylgja löggjöf um matvælaöryggi og neytendavernd, sem hefur nú þegar verið innleidd í gegnum EES-samninginn. Verkefnið felur í sér kaup og uppsetningu á rannsóknatækjum og þjálfun í faggiltum efnagreiningum og eftirlitsstörfum. Með bættum tækjabúnaði verður hægt að framkvæma mun fleiri mælingar innanlands en nú er s.s. mælingar á þörungaeitri í skelfiski og mælingu 300 varnarefna í matvælum í stað þeirra 60 sem nú eru mæld.

Örugg matvæli var upphaflega hluti af IPA-áætlun vegna aðildarviðræðna Íslands við ESB en hefur nú verið hrint í framkvæmd í formi tvíhliða verkefnis milli þýskra og íslenskra stjórnvalda. Verkefnið er unnið í samvinnu Matís, Matvælastofnunar, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Federal Ministry of Food and Agriculture (BMEL), Federal Institute for Risk Assessment (BfR) og Lower Saxony State Office for Consumer Protection and Food Safety (LAVES) í Þýskalandi.