Afleitar niðurstöður úr sjósýni við Siglingaklúbb Nökkva

79.000 saurkólíbakteríur í 100 ml af sjó í vík við flotbryggjur.

HNE tók sjósýni við flotbryggjur Nökkva og sunnan við uppfyllingu á Nökkvasvæðinu þann 8.júní sl og liggja niðurstöður þeirrar sýnatöku nú fyrir.  

Sunnan við uppfyllingu mældust 23 saurkólíbakteríur í 100 ml af sjó en í víkinni við flotbryggjur mældust 79.000 saurkólíbakteríur í 100 ml.  

Viðmiðunarmörk eru 100 saurkólíbakteríur í 100 ml af sjó þar sem útivistarsvæði eru í grennd, samkvæmt reglugerð nr. 796/1999, um varnir gegn mengun vatns.  

Það er því ljóst að ástand sjávar við flotbryggjur Nökkva hefur verið algerlega ófullnægjandi m.t.t. útivistar í vikunni sem er að líða.  HNE beinir þeim tilmælum til forsvarsmanna Siglingaklúbbsins Nökkva og almennings að forðast sjóböð og busl í víkinni þar til niðurstöður liggja fyrir um annað.  

Sýni voru tekin í dag af sömu stöðum og munu þær niðurstöður væntanlega liggja fyrir upp úr helgi.